Uppáhalds Meðgöngu Forrit

Uppáhalds Meðgöngu Forrit

 

Hæ þið!

Eins og einhver af ykkur vita þá er ég ófrísk af öðru barninu mínu. Það er kominn heill áratugur frá því ég var ólétt síðast (HVERT FÓR TÍMINN?) og því líður mér í raun eins og ég sé að gera þetta í fyrsta skipti aftur. Ekki fræðilegur möguleiki fyrir mig að muna allt það sem ég gekk í gegnum á síðustu meðgöngu. Ég var mjög ung þá en ég var 17 ára þegar ég varð ólétt (á þeim tíma var MySpace ennþá vinsælla en Facebook og MSN í fullu fjöri). Það sem einkenndi einnig það tímabil er að snjallsímar og samfélagsmiðlar voru ekki partur af prógramminu (hvað er ég gömul?!). Því má með sanni segja að tæknilega séð eru þessar tvær meðgöngur mínar tvennt ólíkt! Hér áður fyrr nálgaðist ég allan fróðleik úr bæklingum eða bókum en í dag er mun auðveldara að nálgast allar upplýsingar varðandi meðgöngu í gegnum allskonar smáforrit (apps). Þegar ég komst að því að ég var ólétt fyllti ég símann minn af slíkum forritum en í dag hef ég fundið mín uppáhalds sem ég skoða daglega.

OVIA FERTILITY & PREGNANCY

 

Ég hef lengi vel haldið utan um tíðarhringinn minn í gegnum smáforrit en mér finnst einstaklega þægilegt að vita nákvæmlega hvaða daga ég er á túr ásamt helstu frjósemisdögum og egglosdegi. Ég mæli með að notast við slíkt forrit hvort sem þú ert að reyna að verða ólétt eða reyna að verða alls ekki ólétt (kom að góðum notum hjá mér í báðum tilvikum). Það forrit sem ég mæli klárlega með er OVIA Fertility. Þar má sjá hversu miklar líkur er á þungun þann dag sem þið skoðið forritið, á hvaða degi þið eruð í tíðarhringnum, hversu langt er í næsta frjósemistímabil og hvenær mögulegt er að fá jákvætt á óléttuprófi. Í forritinu er dagatal þar sem hægt er að skrá helstu upplýsingar eins og skapsveiflur, líkamleg einkenni, hreyfingu, svefnmynstur og margt fleira sem getur komið að góðum notum. Daglega má sjá áhugaverða fróðleiksmola fyrir þær sem eru að reyna að verða ófrískar. Einnig er hægt að stilla forritið á “not trying to concieve” ef það er ekki á dagskránni.

Um leið og ég fékk jákvætt óléttupróf færði ég mig yfir í OVIA Pregnancy forritið. Daglega koma inn bloggfærslur og fróðleiksmolar varðandi þroska fóstursins og það stig meðgöngunnar sem þið eruð staddar á. Vikulega koma inn nýjar upplýsingar um vöxt og þroska fóstursins ásamt þeim einkennum sem móðirin gæti verið að upplifa. Það sem mér þótti virkilega þægilegt þegar ég var nýorðin ólétt er að í forritinu má finna lista af þeim mat sem ætti að forðast á meðgöngu en mikilvægt er að hafa slíkar upplýsingar á hreinu. Það sem er hins vegar skemmtilegt og öðruvísi við forritið er að það er hægt að fylgjast með stærð á hendi og fót fósturs frá 8 viku meðgöngu. Þegar barnið er komið í heiminn tekur svo við forritið OVIA Parenting.

  

 

 

 

 

Hingað til hefur mér fundist skemmtilegast að skoða forritið “The Bump”. Eins og í flestum forritum má þar sjá vikulegan vöxt og þroska fóstursins ásamt þeim líkamlegu breytingum sem móðirin gengur í gegnum. Það sem er öðruvísi við þetta forrit er að þar má finna 3D mynd af fóstrinu viku eftir viku. Þá er einnig að finna stutt myndbönd og minnispunkta sem gott er að hafa í huga þá vikuna sem maður er staddur á meðgöngunni. Í forritinu er einnig að finna einskonar ‘Spurt og Svarað’ dálk þar sem þið getið sent inn spurningar og lesið svör við allskyns spurningum. Daglega koma inn áhugaverðar bloggfærslur og í forritinu er einnig hægt að verða partur af “bumbuhóp” eins og vinsælt er á Facebook.

 

 

Baby Center mögulega eitt besta forrit sem þið finnið hvað varðar fróðleik. Ásamt fjölda bloggfærsla má einnig finna dálkinn “Is it safe?” en hér er ekki einungis að finna hvað er óhætt eða bannað að borða heldur einnig hvað ætti að forðast í hreyfingu, vinnu, ferðalögum o.fl. Eins og í OVIA forritinu er hægt að fylgjast með og skrá niður hreyfingar fóstursins og þegar að því kemur er hægt að fylgjast með hversu langt er á milli samdrátta. Í forritinu má finna einskonar fæðingarnámskeið sem er skipt niður í sjö kafla en þar er hægt að horfa á myndbönd þar sem farið er yfir hin ýmsu stig fæðingar ásamt raunverulegum fæðingarsögum/myndböndum. Forritið inniheldur einnig lista sem gott er að hafa í huga þegar kemur að fæðingunni sjálfri ásamt ítarlegum lista yfir það hvað gott er að eiga áður en barnið kemur í heiminn.

 

 

Önnur forrit sem ég mæli einnig með eru Pregnancy+ og What to expect en eins og í áðurnefndum forritum koma vikulega inn nýjar upplýsingar um vöxt og þroska fóstursins sem skemmtilegt er að fylgjast með á fyrstu vikunum. Þið megið endilega láta mig vita hver eru ykkar uppáhalds meðgöngu forrit!

 

xo

Fanney

Follow:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *