BABYSHOP PÖNTUN

BABYSHOP PÖNTUN

Babyshop er sænsk netverslun sem selur alls kyns varning fyrir börn frá hinum ýmsu vörumerkjum. Ég deildi því með ykkur á Snapchat þegar ég lagði inn pöntun frá netversluninni en von er á sendingunni eftir helgi. Þið sýnduð þessu mikinn áhuga og því ákvað ég að henda í eina örstutta færslu og sýna ykkur vörurnar sem eru á leiðinni. Ég mun svo væntanlega opna sendinguna með ykkur á Snapchat eftir helgina.

Eins og mér þykir gaman að versla og fara í búðir, þá er bara eitthvað þægilegt við það að sitja upp í sófa undir teppi með kertaljós og henda í eina ágæta pöntun á netinu. Á þessari síðu er svo gríðarlegur fjöldi vörumerkja að þarna gat ég nælt mér í allt á sama staðnum í stað þess að flakka á milli verslana í snjónum og kuldanum til að kaupa einn og einn hlut.

Þetta er fyrsta pöntunin sem ég geri frá þessari netverslun og ég er nokkuð viss um að hún sé ekki sú síðasta, enda er enn margt á óskalistanum sem var ‚Out of stock‘ þegar ég lagði inn pöntunina. Eins og sjá má er litavalið ekki það fjölbreyttasta en ég heillast mest af stílhreinum og tímalausum hlutum og því hefur það ekki verið vandamál fyrir mig að vita ekki hvort kynið ég geng með þegar kemur að því að velja hvað skal kaupa fyrir barnið. Ég hefði hvort eð er aldrei farið út í einhverjar litasprengjur í þessum hlutum.

  1. Babybjörn ömmustóll – Það fyrsta sem var á óskalistanum var þessi ömmustóll frá Babybjörn. Stóllinn er mjög klassískur, er með áklæði sem má þvo, hefur mismunandi stillingar en stólinn er hægt að leggja alveg niður ef barnið sefur. Ég tók stólinn í litnum Anthracite sem er svargrár litur. Ég verð að viðurkenna að ég fæ grænar þegar ég sé ömmustóla með tryllt mynstur, hljóðum og ljósum, finnst það allt of mikið áreiti fyrir svona ung börn. Eldri sonur minn notaði sinn ömmustól ekki það lengi, eða bara fyrstu mánuðina, en það sem er skemmtilegt við þennan stól er að hann stækkar með barninu. Þegar barnið getur setið án hjálpar er hægt að fjarlægja beltið og þá er kominn lítill stóll.
  2. Ubbi blautþurrkubox – Fyrstu mánuðina vil ég engin óþarfa efni eða lykt á litla bossann og því hafði ég hugsað mér að búa til eigin blautþurrkur úr grisjum og soðnu vatni. Ég hef heyrt að þetta blautþurrkubox frá Ubbi sé þægilegt og haldi þurrkunum rökum og því þótti mér tilvalið að næla mér í eitt slíkt fyrir þessa tilraunastarfsemi í blautþurrkugerð. Sjáum til hvernig það heppnast (þótt þetta séu engin geimvísindi).
  3. Philips Avent fjölnota brjóstainnlegg – Þegar ég sá þessi fjölnota brjóstainnlegg þá varð ég að prófa að kaupa þau en ég man hversu fljót ég var að fara í gegnum kassa af einnota Lansinoh innleggjum þegar ég var með eldri strákinn á brjósti. Það að þurfa ekki að henda innleggjunum eftir hvert skipti sparar pening og er umhverfisvænna sem heillar mig. Ef mér líkar vel við þessi innlegg mun ég klárlega fjárfesta í öðrum pakka en það koma sex innlegg í pakkanum og með fylgir þvottanet.
  4. Elodie Details kerrupoki – Ég vissi að ég vildi kaupa góðan og hlýjan kerrupoka fyrir krílið en ég heillaðist strax af pokunum frá Elodie Details. Þessi poki er með 70% dún og 30% fiður fyllingu og er því mjög hlýr sem er mjög hentugt fyrir kríli sem fæðast um hávetur. Hann mun klárlega koma sér vel í göngutúrum á köldum vetrardögum! Pokinn er 53×110 cm, hann hefur op fyrir 5 punkta belti og því passar hann við flestar kerrur og vagna. Ég tók kerrupokann í litnum Midnight Black.
  5. Done by Deer skiptidýna – Ég veit að ég er ekki að fara að kaupa eitthvað sérstakt skiptiborð, enda þykir mér það óþarfi þar sem barnið fer mjög fljótlega á ferðina. Við vorum með skiptiborð fyrir eldri strákinn sem var lítið sem ekkert notað heldur var skipt á honum hér og þar um húsið. Ég ákvað þó að splæsa í eina skiptidýnu sem verður ofan á Ikea kommóðu til að byrja með en hún verður væntanlega einnig á flakkinu með okkur um íbúðina. Þessi er mjög plain, kemur frá danska merkinu Done by Deer og ég tók hana í gráum lit. Hægt er að taka áklæðið af dýnunni til að setja í vél.
  6. Done by Deer tauklútar – Ég leyfði þessum klútum að fljóta með þar sem mér finnst þeir mjög sætir. Ég veit hins vegar ekkert hvort þeir séu góðir en mig langaði til að prófa. Annars eruð þið mjög dugleg að benda mér á hvar sé gott að kaupa eitt og annað sem vantar og hef ég fengið ansi margar ábendingar hvar má finna góða tauklúta. Ég fer í það mál þegar nær dregur.
  7. Geggamoja slefsmekkur – Síðast en ekki síst kippti ég þessum ljósgráa slefsmekk með. Þrátt fyrir að það sé áratugur á milli barnanna minna þá man ég vel eftir því að slíkir smekkir voru mikið notaðir á tímabili hjá eldri stráknum. Þessi er mjög plain en kemur í allskyns litum, ég tók hann í gráum.

Þið getið klikkað á nöfnin á vörunum til að skoða þær inn á Babyshop.
XO

Follow:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *