Planta Mánaðarins: Calathea

Planta Mánaðarins: Calathea

 

Planta Mánaðarins – Nóvember 2017

Calathea

Á síðustu misserum hefur eins konar plöntu tískubylgja verið áberandi. Þetta trend verður sívinsælla og jafnvel má sjá margar mismunandi tegundir plantna inn á heimilum fólks. Því fleiri plöntur því betra! Það er ekki furða að plöntur séu vinsælar enda er þetta skemmtilegt trend sem lífgar upp á heimilið og passar í raun og veru við hvaða innanhúss stíl sem er. Fyrir plöntuáhugafólk verður því nýr liður hér á síðunni eða ‚Planta Mánaðarins‘ þar sem þið fáið að kynnast nýjum og spennandi tegundum í hverjum mánuði. Calathea ættkvíslin er sú sem fær heiðurinn af því að vera sú fyrsta í röðinni en hinar mismunandi tegundir Calathea hafa aldeilis slegið í gegn enda þekktar fyrir stórkostlega fegurð.

Calathea er hitabeltisplanta sem kemur upprunalega úr regnskógum Amazon svæðisins í Suður Ameríku. Ættkvíslin hefur fjöldann allan af mismunandi tegundum en þær sem hafa verið áberandi eru m.a. Peacock Plant, Zebra Plant og Rattlesnake Plant. Calathea plönturnar koma í mörgum stærðum og gerðum, hver og ein þeirra einkennist af glæsilegu útliti en fallegir litir og mynstur gætu auðveldlega fengið mann til að halda að plantan sé gervi.

Takið eftir fallegum og mismunandi blöðunum en þau geta verið bylgjulaga, röndótt, kringlótt, sívöl eða sporöskjulaga. Tegundir Calathea  hafa því mismunandi form og hin fegurstu mynstur sem gleðja augað og lífga upp á heimilið. Blöðin hafa þá tilhneigingu til að breyta um stöðu eftir hitastigi/raka og tíma sólarhringsins. Þegar birta tekur á morgnanna opnast blöðin til að njóta birtunnar en þegar kvölda tekur lokast þau aftur og standa teinrétt. Blöðin á plöntunni eiga það jafnvel til að hreyfast.

 

Hvernig er best að hugsa um Calathea?

  • Mikilvægt er að plantan nái að halda góðum raka en hún dafnar best í röku lofti og í hitastigi á bilinu 15-21 gráður. Gott er að vökva Calatheuna passlega 1-2x í viku en passa að hún liggi ekki í vatni eða sé of blaut. Úðið reglulega á blöðin með vatni. Á veturna þarf ekki að vökva jafn oft.
  • Plöntunni líkar best við örlitla birtu en ekki beint sólarljós. Ef plantan á að vera í glugga hentar norðurgluggi því best en hún dafnar þó vel þar sem hún fær ágæta birtu og jafnvel á skuggsælum stöðum.
  • Ef plantan dafnar vel er gott að umpotta árlega eða annað hvert ár á vorin eða snemma á sumrin.
  • Plantan er ekki eitruð en hún tilheyrir Marantaceae fjölskyldunni og því er óhætt að plantan sé í nálægð við dýr og fólk.
  • Ef ryk fellur á blöðin er gott að renna létt yfir þau  með rakri tusku eða skola plöntuna í sturtunni.

 

Mæli með að bæta einni stórkostlegri Calathea plöntu inn á heimilið!

Ég keypti mína Calathea Zebra í Bauhaus.

Follow:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *